F R É T T A T I L K Y N N I N G
frá stjórn Sáttar, félags um sáttamiðlun.
Í gær kynnti dómsmálaráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, aðgerðir til að stytta boðunarlista til afplánunar refsinga. Byggja þær á tillögum sem starfshópur, skipaður af ráðherra, lagði til í skýrslu sem birt var af sama tilefni. Ein þessara tillagna felur í sér að heimildir ákærenda til að ljúka málum með sáttamiðlun verði rýmkaðar. Sáttamiðlun verði fest í sessi í lögum og að sérstök nefnd verði skipuð til að halda utan um sáttamiðlun og stuðla að framþróun úrræðisins.
Stjórn Sáttar, félags um sáttamiðlun, fagnar þessum áformum dómsmálaráðherra. Ísland hefur verið eftirbátur annarra ríkja við beitingu sáttamiðlunar, bæði við úrlausn einkaréttarlegra deilumála en einnig innan refsivörslukerfisins. Með sáttamiðlun leitast aðilar við að ná sáttum með aðstoð sáttamiðlara í kjölfar ágreinings eða afbrots í stað þess að fara fyrir dóm. Sáttamiðlun byggir á hugmyndafræði um uppbyggilega réttvísi og er skjótvirkt, hagkvæmt og árangursríkt úrræði sem nota má til að leiða til lykta fjölbreytta flóru deilumála. Með því að beita sáttamiðlun í sakamálum skapast þess utan aukið færi á að hlúa að þörfum þolandans í stað þess að öll áherslan sé á að refsa gerandanum.
Aukin notkun sáttamiðlunar getur dregið verulega úr þeim mikla málafjölda sem fer í gegnum dómstóla landsins, ekki bara í sakamálum heldur einnig í hefðbundnum einkamálum. Stjórn Sáttar fagnar því aðgerðum dómsmálaráðherra og hvetur hana til að vinna að því að lögfesta sáttamiðlun sem úrræði við lausn ágreiningsmála á breiðum grundvelli.
תגובות