top of page

SIÐAREGLUR SÁTTAMIÐLARA

1. Grundvallaratriði

 1. Sáttamiðlun er málsmeðferð þar sem sáttamiðlari að frumkvæði aðila leiðir ferlið og aðstoðar þá við að semja sjálfir um lausn á ágreiningi sínum.

 2. Sáttamiðlara ber að stuðla að jafnræði með aðilum og sýna þeim virðingu.

 3. Sáttamiðlari er bundinn þagnarskyldu um allt sem fram kemur í sáttamiðluninni og í tengslum við hana, nema aðilar semji um annað eða lög krefjist. Það sama á við um fundi sáttamiðlara með hvorum aðila um sig.

 4. Sáttamiðlari skal áður en sáttamiðlun hefst ganga úr skugga um að aðilar hafi skilið hvað felst í  sáttamiðlun og undirritað „Samning um sáttamiðlun.”

 5. Sáttamiðlari er ekki ráðgjafi aðila, tekur ekki afstöðu til ágreinings þeirra og hefur ekki það hlutverk að útkljá ágreininginn.

 6. Sáttamiðlara ber ekki skylda til að grípa inn í ef aðilar finna lausn á deilu sinni sem er frábrugðin því sem líklegt er að yrði niðurstaða dómstóls eða stjórnvalds. Sáttamiðlara ber heldur ekki skylda til að tjá sig um sterka eða veika þætti í málflutningi aðila.

 7. Aðilar taka þátt í sáttamiðlun af fúsum og frjálsum vilja. Hvor/hver þeirra sem er, sem og sáttamaður, geta hvenær sem er ákveðið að binda endi á sáttamiðlunina.

2. Hlutleysi, óhlutdrægni og sjálfstæði

 1. Sáttamiðlari skal vera hlutlaus, óhlutdrægur og óháður aðilum og ágreiningsmálum þeirra.

 2. Sáttamiðlari skal, eftir því sem tilefni er til, bæði fyrir sáttamiðlun og meðan á henni stendur upplýsa aðilana um það sem hugsanlega getur haft áhrif á hlutleysi hans, óhlutdrægni og sjálfstæði.

 3. Komi upp réttmætur vafi um hlutleysi sáttamiðlara, óhlutdrægni eða sjálfstæði, skal sáttamiðlari binda endi á sáttamiðlunina.

 4. Sá sem hefur komið að ágreiningi sem sáttamiðlari getur ekki eftir það gætt hagsmuna annars aðilans í máli sem tengist ágreiningnum.

3. Hlutverk, skyldur og hæfni sáttamiðlara

 1. Sáttamiðlara er skylt að fara eftir siðareglum þessum.

 2. Sáttamiðlari skal í samvinnu við aðila skapa sem bestar aðstæður fyrir framgang máls þess sem til umfjöllunar er.

 3. Sáttamiðlari skal hafa lokið námskeiði á vegum Sáttar eða sambærilegu námi sem félagið viðurkennir. Sáttamiðlara ber að viðhalda sem best þekkingu sinni og færni sem sáttamiðlari.

Siðareglurnar voru samþykktar á félagsfundi Sáttar 16. október 2007

Smelltu hér til þess að sækja pdf útgáfu af siðareglunum.

Verklagsreglur vegna kvartana um brot á siðareglum sáttamiðlara 

 

Þeir aðilar sem telja að sáttamiðlari sem skráður er í fagdeild Sáttar hafi brotið gegn siðareglum sáttamiðlara við undirbúning, framkvæmd eða lok sáttamiðlunar sem þeir hafa tekið þátt í geta sent kvörtun til stjórnar Sáttar. Stjórn Sáttar tekur á móti kvörtunum vegna meintra brota á siðareglum félagsins á netfang Sáttar satt@satt.is

1. gr. Form og efni kvartana

Kvörtun skal vera skrifleg og skulu eftirfarandi atriði koma fram:

a. Upplýsingar um kvartanda, þ.e. þess sem leggur fram kvörtunina, svo sem nafn, kennitala, heimilisfang og netfang.

b. Upplýsingar um viðkomandi sáttamiðlara sem kvörtunin beinist gegn, svo sem nafn og netfang.

c. Upplýsingar um ágreiningsefnið, þ.e. um hvað málið snýst, hvenær sáttamiðlun fór fram og hvort og hvenær henni lauk. Ef eingöngu fór fram undirbúningur að sáttamiðlun þarf það að koma fram.  

d. Rökstuðningur kvartanda þ.e. hvers vegna hann telur að sáttamiðlarinn hafi brotið gegn siðareglum sáttamiðlara og þá hvaða greinum í siðareglunum.  

 

Með kvörtuninni skulu fylgja þau gögn sem varpað geta ljósi á mál, svo sem afrit af samningi um sáttamiðlun.

 

Stjórn Sáttar hefur útbúið eyðublað fyrir kvartanir. Ekki er skylt að nota eyðublaðið en nauðsynlegt er að allar framangreindar upplýsingar komi fram í kvörtuninni. 

 

Kvörtun þarf að hafa borist stjórn Sáttar innan 6 mánaða frá því að sáttamiðlun lauk eða undirbúningi hennar ef sáttamiðlun fór ekki fram. 

 

​2. gr. Móttaka kvörtunar

Þegar kvörtun berst skal hún lögð fram á næsta fundi stjórnar. Skal stjórn kanna hvort tengsl séu á milli aðila máls og sitjandi stjórnarmeðlima. Stjórn gætir að eigin hæfi við úrlausn málsins og ber skylda til að upplýsa um vanhæfisástæður. 

 

Stjórnin skal kanna hvort málatilbúnaður kvartanda sé fullnægjandi. Sé svo ekki skal veita honum stuttan frest til að bæta þar úr.

​3. gr. Siðanefnd

Stjórn Sáttar skal tilnefna þrjá aðila í siðanefnd til að annast meðferð hvers máls sem berst til stjórnar. Siðanefnd skal skipuð sáttamiðlurum úr fagdeild Sáttar sem hafa ekki tengsl við málið og mega þeir vera stjórnarmenn.     

 

4. gr. Málsmeðferð og málshraði

Ef málatilbúnaður kvartanda er fullnægjandi skal viðkomandi sáttamiðlara sem kvörtunin beinist gegn sent afrit af kvörtuninni og fylgigögnum með henni og honum gefinn 15 daga frestur til að skila greinargerð um sína hlið málsins og rökstuðningi fyrir henni. Skal afrit af greinargerð sáttamiðlara send kvartanda. 

 

Siðanefnd skal senda málsaðilum, þ.e. kvartanda og sáttamiðlaranum, afrit af öllum gögnum sem berast í málinu.

 

Siðanefnd er heimilt að vísa máli frá í upphafi eða á síðari stigum enda fullnægi það ekki að mati siðanefndar lágmarkskröfum til að unnt sé að taka það til efnismeðferðar. Þó skal siðanefnd heimilt, sé málatilbúnaður kvartanda ófullnægjandi, að veita honum stuttan frest til að bæta þar úr.

 

Siðanefnd getur hvenær sem er boðað báða aðila á sinn fund til að upplýsa málið. Hægt er að boða aðila saman til fundar eða í sitt hvoru lagi. 

Málsmeðferð siðanefndar er tvennskonar:

 1. Sáttamiðlun. Þegar greinargerð viðkomandi sáttamiðlara liggur fyrir og hefur verið send kvartanda eða hann kýs að senda ekki skriflega greinargerð skal siðanefnd bjóða kvartanda og viðkomandi sáttamiðlara sáttamiðlun í málinu. Þurfa báðir aðilar að samþykkja að slík sáttamiðlun fari fram. Ef deiluaðilar samþykkja sáttamiðlun skal siðanefndin í samráði við kvartanda og þess sáttarmiðlara sem kvörtunin beinist gegn finna sáttamiðlara úr fagdeild félagsins til að annast málið, eins fljótt og verða má. Takist sættir, lýkur málinu á milli málsaðila þegar sáttin hefur verið framkvæmd. 

 2. Úrskurður. Ef sættir takast ekki með sáttamiðlun, sáttamiðlari bregst ekki við kvörtuninni eða ef deiluaðilar hafna sáttamiðlun skal siðanefndin taka málið til meðferðar.  Siðanefnd skal kveða upp skriflegan úrskurð í málinu. Greint skal stuttlega frá kröfum og málsástæðum málsaðila og niðurstaða rökstudd og dregin saman í úrskurðarorði. Sé það niðurstaða siðanefndar að um brot á siðreglum sé að ræða skal það koma fram í úrskurðinum hvers konar brot sé um að ræða en siðanefnd greinir brot í þrjá flokka eftir eðli þeirra: 

a) ámælisvert 

b) alvarlegt 

c) mjög alvarlegt 

Sé um að ræða ámælisvert brot getur stjórn Sáttar veitt viðkomandi sáttamiðlara áminningu. Sé um að ræða alvarlegt eða mjög alvarlegt brot getur stjórnin vísað viðkomandi úr fagdeild félagsins tímabundið, eða ótímabundið. 

Stjórn Sáttar og siðanefnd skal taka mál til meðferðar án tafar og skila úrlausn svo fljótt sem kostur er og jafnan innan þriggja mánaða frá því að kvörtunin barst.  

 

bottom of page