top of page

Sáttamiðlun

Hvað er sáttamiðlun?

Sáttamiðlun er aðferð til lausnar ágreinings, þar sem tveir eða fleiri aðilar taka sjálfviljugir þátt. Samtalið er ávallt í trúnaði. Með aðstoð óháðs og hlutlauss sáttamiðlara komast aðilar sjálfir að samkomulagi um lausn ágreiningsins, sem þeir meta viðunandi fyrir alla aðila, í gegnum skipulagt og mótað ferli. 

Lausn deilunnar sett í forgang

Sáttamiðlun er notuð í auknum mæli af fyrirtækjum, stofnunum og einstaklingum. Deilan getur t.d. verið á milli fyrirtækja, vinnuveitanda og starfsmanns, nágranna eða innan fjölskyldna. 

Í sáttamiðlun er lausn deilunnar sett í forgang og aðilarnir sjálfir spila stærsta hlutverkið, ólíkt hefðbundnum dómsmálum eða gerðardómsmálum. Sáttamiðlun veitir ákveðið frelsi við lausn ágreinings og eru aðilar ekki bundnir við sömu málsmeðferðarreglur og gilda fyrir dómstólum. Jafnvel þó málsmeðferð fyrir dómi sé hafin getur dómar ákveðið að málið fari í sáttamiðlun, telji hann það vænlegt til árangurs. 

​Sáttamiðlari aðstoðar aðilana við að skilja stöðu sína, þarfir aðilanna og sameiginlega hagsmuni, svo aðilar geti komist að sameiginlegri niðurstöðu og samkomulagi. Með sáttamiðlun komast aðilar hjá langdregnum dómsmálum. Lögfræðingar aðilanna eða aðrir sérfræðingar geta tekið þátt í sáttamiðluninni sé þess óskað. 

Hvernig gengur sáttamiðlun fyrir sig?

Sáttamiðlun fylgir yfirleitt þessu ferli: 

 • Aðilar sammælast um að leysa ágreining sinn með hjálp sáttamiðlunar 

 • Aðilar hittast ásamt sáttamiðlara yfirleitt á hlutlausum stað 

 • Aðilar útskýra hvor fyrir öðrum þeirra upplifun af vandanum eða deilunni 

 • Hagsmunir og þarfir aðila eru ræddar 

 • Möguleikar að lausn eru settir upp 

 • Lausnin byggist upp á umræðum aðilanna 

 • Komist er að samkomulagi í sameiningu 

​Sáttamiðlarinn sér til þess að hlustað sé á báða aðila og að þeir fái tíma til að koma fram með sín sjónarmið og tillögur að lausn. Viðskiptalegur ágreiningur leysist yfirleitt á 1-2 fundum, eftir umfangi deilunnar. Fjölskyldutengdur ágreiningur þarf stundum fleiri en skemmri fundi. 

Kostir sáttamiðlunar

VIRÐING

Sáttamiðlari aðstoðar aðilana við að leysa deiluna sín a milli. Það gerir hann með umræðum og með því að mæta þörfum aðilanna eins vel og hægt er. Þess vegna er lausn í sáttamiðlun oft betri en dómur eða ákvörðun sem er tekin af þriðja aðila.

ALLIR SIGURVEGARAR

Það er enginn sem tapar í sáttamiðlun þegar áhersla er lögð á samtal og sameiginlega lausn. Það eitt er rík ástæða fyrir marga að velja sáttamiðlun fram yfir dómstóla.

EKKI RÁÐGJAFI

Sáttamiðlarinn leysir ekki deiluna eða gefur ráð, heldur leitast hann við að hlustað sé á aðilana og að þeirra sjónarmið komi fram. Aðilarnir sjálfir eiga samtalið og lausnina. Lögfræðingar aðilanna geta veitt ráð á meðan á sáttamiðlun stendur ef svo ber undir. 

SJÁLFVILJUGIR AÐILAR

Aðilarnir geta valið að slíta sáttamiðlunini á hvaða tímapunkti sem er, þar sem ferlið er valfrjálst.

Samanburður úrræða

Lausn ágreinings með sáttamiðlun:

 • Sáttamiðlun er lausnamiðuð

 • Samningur saminn af báðum aðilum er markmiðið 

 • Sameiginlegur ágreiningur kallar á sameiginlega lausn 

 • Tekið er tillit til beggja aðila 

 • Deiluaðilar bera sjálfir ábyrgð

 • Deiluaðilarnir gegna lykilhlutverki

 • Áhersla er lögð á möguleika 

 • Áhersla er lögð á sameiginlega hagsmuni 

 • Horft til framtíðar 

 • Fljótlegra og ódýrara

Lausn ágreinings fyrir dómi: 

 • Deiluaðilar eru andstæðingar 

 • Lausn er ákveðin af dómara

 • Ábyrgðin er færð  yfir á aðra 

 • Athyglin er að mestu á lögmönnum og dómurum

 • Áherslan er á lögfræðileg atriði 

 • Tímafrekt ferli 

 • Horft til fortíðar 

 • Endar með sigri eins og tapi annars 

Satt_ferli.PNG

Hvað fæ ég út úr sáttamiðlun? 

Sáttamiðlun byggist á ósk deiluaðila um lausn og miðar að þvi að hámarka ávinning allra aðila. Sáttamiðlarinn hjálpar aðilum að byggja brú á milli hagsmuna og þarfa þeirra án þess að persónuleg og viðskiptaleg tengsl hafi neikvæð áhrif. Deiluaðilarnir sjálfir gegna lykilhlutverki og þeir hafa forræði á samningaviðræðum og ákvörðunum í málinu þannig að hægt sé að finna klæðskerasniðna lausn með aðstoð sáttamiðlarans. 

Kostnaðurinn er töluvert lægri en þegar mál eru rekin fyrir dómstólum eða gerðardómi, þar sem sáttamiðlun gengur mun hraðar fyrir sig, m.a. þar sem hægt er að skipuleggja fundartíma og fundarstað með sveigjanlegum hætti í samræmi við þarfir aðila. 

 

Hvers vegna að velja sáttamiðlara?

Málarekstur er oft á tíðum tímafrekur, kostnaðarsamur og leggst þungt á tilfinningalíf deiluaðila. Í sáttamiðlun geta aðilar oftast komist að lausn á skömmum tíma. Aðilar gera samning um sáttamiðlun við sáttamiðlara að eigin val. Sáttamiðlarar eru sérmenntaðir og fara eftir siðareglum. Sáttamiðlarar hafa oft á tíðum mikla reynslu af lausn ágreiningsmála og hafa bæði fræðilega og hagnýta reynslu sem hjálpar aðilum að sjá ágreininginn frá fleiri sjónarhornum. 

bottom of page